Sýning á ljósmyndum Björns Bergmann var haldin í
Héraðsskjalasafninu, á Húnavöku Blönduóssbæjar 17. - 18. júlí 2010, í tilefni
100 ára afmælis Björns. Hann var fæddur á Marðarnúpi í Vatnsdal 24. maí
1910 og hefði orðið 100 ára á þessu vori hefði hann lifað. Hann lést 30.
maí 1985, 75 ára að aldri.
Hann valdi barnakennslu að ævistarfi, lauk prófi frá Kennaraskóla
Íslands árið 1936. Áður hafði hann verið á Laugaskóla og á fyrstu árum
kennsluferils síns starfaði hann austur í Þingeyjarsýslu. Honum varð
mjög tíðrætt um það tímabil sem var honum uppspretta umræðna um íslenskt
mál. Varð honum þá ljóst hversu mikill munur var á málnotkun og málfari
manna eftir landshlutum og hafði unun af að kynnast málfari
Þingeyinganna og þar eignaðist hann marga góða vini. Björn var sjálfur
góður íslenskumaður, sem var hans styrkur í starfi fræðarans. Hann
minntist líka oft á atferli Mývetninga við silungsveiði sem hann tók
þátt í með þeim og hafði alla tíð gaman af veiðiskap. Árið 1942 var
Björn ráðinn til starfa við Barnaskólann á Blönduósi og starfaði þar
starfsævina á enda.
Gestir voru um 200.
Menningarráð Norðurlands vestra styrkti sýninguna.